Categories
Viðburðir

Múlakot 2020

Fjölskylduhátíðin á Múlakoti verður haldin um Verslunarmannahelgina, 31. júlí til 3. ágúst 2020, eins og fyrri ár, í boði AOPA Ísland.

Hátíðin stendur frá föstudegi til mánudags, en hátíðin mun fara fram með mestmegnis hefðbundinni dagskrá þrátt fyrir COVID-19. Nokkur nýmæli verða viðhöfð bæði til að bregðast bæði við heimsfaraldrinum og ábendingum sem hafa komið eftir fyrri ár.

Á dagskrá eru meðal ananrs krakkaleikar, lendingakeppni, STOL-keppni, brenna, kvöldvaka, o.fl.

Dagskrá

Föstudagur 31. júlí:

19:00 Briefing fyrir Sprengjuvarp – mæting við sjoppuna.

20:00 Sprengjuvarp

Hvort það verða vatnsblöðrur eða hveitipokar á eftir að koma í ljós, en nákvæmt skal það vera.

Leikreglur:

 • Lágmarksflughæð er 200‘ AGL
 • Hvert lið samanstendur af einum flugmanni og einum varpara
 • Tvíhliða samskiptum við grund skal komið á fyrir yfirflug og varp

Þeir sem best hitta fá viðurnefnið Sprengjusveitin 2020.

Laugardagur 1. ágúst:

12:00 – 14:00 Krakkaleikarnir

Börn á öllum aldri fá tækifæri til að spreyta sig á allskonar þrautum og verkefnum á hinum klassísku krakkaleikum.

14:00 Briefing fyrir Lendingarkeppni – mæting við sjoppuna

15:00 Lendingarkeppni MK2020

Keppt verður í marklendingum á allskonar flugvélum.

Leikreglur:

 • Þátttöku skal tilkynna með góðum fyrirvara til dómara / umsjónarmanns
 • Umferðarhringur skal floginn í 800‘ AGL.
 • 3-4 flugvélar verða í hverri lotu
 • Hver keppandi tekur tvær lendingar.
 • Fyrri lending er án afls og dregið skal af öllu afli þvert á lendingarstað. Aflnotkun ógildir lendingu (fullt hús refsistiga). Flapa má nota.
 • Seinni lending er yfir tveggja metra háa hindrun sem staðsett verður 50 metra frá marki. Afl og flapa má nota að vild.

Úrslit verða kynnt strax að keppni lokinni.

22:00 Varðeldur tendraður

Eldheitir slagarar verða vonandi teknir þar undir skál.

Sunnudagur 2. ágúst:

14:00 Hópflug að Fjallabaki

Kíkt á lendingarstað sem fyrrum var notaður í Emstrum, farið að Skálavatni og flogið austur að Ófærufossi, niður að Axlarfossi, framhjá Mælifelli, yfir Entujökul, yfir brautina í Þórsmörk og heim að Múlakoti.

19:00 Briefing fyrir STOL keppni – mæting við sjoppuna

20:00 STOL keppni

Markmiðið hér er að komast í loftið með sem skemmstu brautarbruni og lenda á sem stystri vegalengd. Þetta er ekki flókið, en krefst einbeitningar og flugmennsku.

Flug á Múlakoti

Það er skemmtilegt að sem flestir komi fljúgandi á staðinn, en gott er að hafa í huga:

 1. Kalltíðni í Múlakoti er 118.4MHz
 2. Kalla skal fyrst 4NM frá velli þegar komið er inn til lendingar (c.a. hjá Hvolsvelli eða Stóra-Dímon)
 3. Allar lendingar upp í vind ─ engar lendingar undan vindi.
 4. Umferðarhringur er sunnan við völl í 1000ft AGL.
 5. Allt flug norðan við völl og yfir tjaldsvæði er bannað.

Flugbrautirnar eru 799 metrar á lengd, 39 metrar á breidd, í 260ft hæð yfir sjávarmáli á stefnu 11 og 29. Staðsetning 63°42’51″N 019°52’45″W.

Tjaldsvæði

Öllum er frjálst að tjalda á Múlakoti meðan hátíðin stendur yfir. Svæðinu verður skipt upp í nokkur hólf til að auðvelda skipulag.

Rafmagn er á svæðinu fyrir hjólhýsi og aðra sem þurfa.

Sjoppa og grill

Meðan á hátíðinni stendur verður sjoppa rekin í tjaldi á svæðinu, nærri flugskýlunum. Nammi, gos og pylsur verða í boði, ásamt öðru.

Á Laugardeginum verður grill aðgengilegt á staðnum fyrir þá sem vilja nýta sér það. Ekki verður sameiginlegt grill á þessu ári.