Í dag kveðjum við í hinsta sinn góðan félaga, Harald Unason Diego eða Hadda eins og við vinir hans kölluðum hann.
Haddi tók við formennsku AOPA Iceland (Hagsmunafélags einkaflugmanna og flugvélaeigenda á Íslandi) í maí 2017 eftir að hafa starfað í stjórn félagsins um árabil, en þar áður hafði hann starfað í tug ára á vettvangi flugmála meðal annars sem ritstjóri Flugsins, tímarit um flugmál. Hann vann ötullega að framgangi einkaflugs og uppbyggingu grasrótarinnar alla tíð og hafði mikla ástríðu fyrir frelsi og öryggi í flugi.
Haddi lærði ungur að árum að fljúga enda var það hans ástríða í lífinu og hvergi gat hann hugsað sér að vera annarstaðar en á flugi. Það má eiginlega segja að það hafi verið hans náttúrulega umhverfi. Flug um töfraheima hálendisins átti sérstakan stað í hjarta hans, þangað fór hann oftast til að njóta, með vinum og þá var ávalt myndavélin höfð með. Oft voru vinir á öðrum vélum hafðir með í för og síðan notaðir sem fyrirsætur yfir stórfenglegum árbreyðum hálendisins.
Haddi sagði ávalt: “Flug er til að njóta með vinum”. Eitt af því sem hann stóð fyrir var að safna saman vélum í hópflug á vegum AOPA. Það er minnistætt eitt slíkt þegar 20 vélar mættu að Reykhólum í Breiðafirði, í glampandi sól. Sundlaug staðarins fyltist og ísinn seldist upp. Á veturna þegar smávellirnir lágu undir snjó þá var skroppið rétt út fyrir bæinn og lent á þykkum og traustum ís, þar sem boðið var uppá heitt kakó og kleinur. Árleg flugsamkoma í Múlakoti var einnig á hans könnu auk þess að fljúga árlega með krabbameinsveik börn og aðstandendur.
Það er ljóst að Haddi var mjög öflugur í grasrótarstarfinu og var líka litríkur félagi, hress, jákvæður og uppátækjasamur. Hans verður klárlega sárt saknað. A.m.k. er strax orðið tómlegra í loftinu án hans. Nú er enginn sem rennir sér allt í einu upp að manna og segir “haltu hæð, stefnu og hraða, ég er fyrir ofan þig að taka mynd”
Farðu í friði kæri vinur og hafðu þökk fyrir allt.
Stjórn AOPA sendir fjölskyldu Hadda innilegar samúðarkveðjur.